Innlent

Ekki ráðskast með Olíudreifingu

Forsvarsmenn Olíufélagsins settu það skilyrði fyrir samvinnu við Samkeppnisstofnun, að ekkert yrði ráðskast með Olíudreifingu. Þetta kom fram við yfirheyrslur Ríkislögreglustjórans yfir stjórnarformanni Olíufélagsins. Samkeppnisstofnun heimilaði starfsemi Olíudreifingar, sem er í eigu Essó og Olís, með ákveðnum skilyrðum. Forstjóri Skeljungs hefur lýst grunsemdum um að Essó hafi sett það sem skilyrði fyrir því að Essó ynni með Samkeppnisstofnun að rannsókn á samráði olíufélaganna, að Olíudreifing fengi að starfa áfram. Þetta fæst staðfest í skýrslu frá Ríkislögreglustjóranum. Í yfirheyrslu yfir Kristján Loftssyni stjórnarformanni Kers, áður Olíufélagsins, segir hann að hann og Kristinn Hallgrímsson lögmaður félagsins og Ólafur Ólafsson hafi farið á fund Samkeppnisstofnunar í mars 2002 og rætt málin varðandi samvinnu. Síðan segir hann að ákveðið hafi veirð að hefja samstarf með Samkeppnisstofnun. Í því samkomulagi hafi meðal annars falist afsláttur á sektum ef til þeirra kæmi, að ekki yrði ráðskast með rekstur Olíudreifingar og að Samkeppnisstofnun færi ekki að eigin frumkvæði með málið til lögreglu. Ekki náðist í Kristján í dag til að fá staðfest að orðið hafi verið við skilyrðunum, en í það minnsta starfar Olíudreifing í dag og Essó fékk afslátt af sektum. Meðal skilyrða sem Samkeppnisstofnun sett fyrir starfsemi Olíudreifingar var að stjórnarmenn í Essó, Olís eða Hydro Texaco sætu ekki í stjórn Olíudreifingar. Hins vegar hafa aðrir forsvarsmenn bæði Essó og Olís setið þar í stjórn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×