Sport

Rússland mjög spennandi

Það eru takmarkaðar líkur á því að Viktor Bjarki Arnarsson spili áfram með 1. deildarliði Víkinga. Hann hefur sett stefnuna á að komast í atvinnumennsku en ef það gengur ekki eftir þá vill hann spila í Landsbankadeildinni hér heima. Tvö félög í Landsbankadeildinni eru búin að gera Viktori Bjarka tilboð og svo eru talsverðar líkur á því að hann fari fljótlega til reynslu hjá rússnesku úrvalsdeildarliði. "Maður er enn að skoða sín mál en ég er kominn með tilboð frá Val og Fylki sem ég er að skoða," sagði Viktor Bjarki við Fréttablaðið í gær en hann er ekki búinn að gefa Víking upp á bátinn þótt hann vilji ekki leika með þeim á næstu leiktíð. "Ég ætla að vera í úrvalsdeild næstu ár en ég hef tjáð Víkingum að ef þeir lána mig í ár þá mun ég framlengja samning minn við þá um eitt ár. Ég er til í að vera trúr mínu félagi," sagði Viktor en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við Víking. Viktor Bjarki mun ekki svara Val og Fylki á næstunni því hugsanlega á hann möguleika á að komast til Rússlands og það dæmi vill hann skoða í þaula áður en hann bindur sig á Íslandi. "Ég fer væntanlega til Rússlands á næstunni til reynslu en ég get ekki sagt hvaða lið um ræðir eins og stendur. Það er ljóst að ég mun sjá hvað kemur út úr því dæmi áður en ég skrifa undir við íslenskt félag," sagði Viktor nokkuð spenntur enda ekki á hverjum degi sem slíkt boð kemur. "Þetta er lið í úrvalsdeildinni og það ræðst væntanlega í næstu viku hvort ég fari út til þeirra. Þetta er verulega spennandi því ég hef ekki áður komið til Rússlands og það verður gaman að sjá hvernig bolti er spilaður þarna því maður hefur lítið fylgst með honum," sagði Viktor Bjarki Arnarsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×