Innlent

Ummæli ráðherra misvísandi

Ummæli félagsmálaráðherra um samskipti Barnaverndarstofu og meðferðarheimilisins að Torfastöðum eru misvísandi. Ummælin byggðust á greinargerð Ríkisendurskoðunar en virðast stangast á við niðurstöðu hennar. Félagsmálaráðuneytið sendi frá sér samantekt fyrir þremur vikum upp úr greinargerð Ríkisendurskoðunnar. Stöð 2 tók viðtal við Árna Magnússon félagsmálaráðherra sem harmaði að rekstraraðilar Torfastaða hefðu neyðst til að segja upp samningi við Barnarverndarstofu vegna samskiptaörðugleika. Í greinargerð ríkisendurskoðunnar segir hins vegar að tilraunir stofunnar til þess að koma á nýjum samningi hafi ekki á nokkurn hátt opinberað óvild eða andstöðu í garð heimilisins eins og hjónin á Torfastöðum hafa haldið fram. Sjónarmið Barnaverndarstofu hafi verið eðlileg þó ekki sé hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að gætt hafi þreytumerkja hjá starfsfólki Barnaverndarstofu í tengslum við samskiptaörðugleika. Hjónin sem reka Torfastaði gerðu kröfu um sambærilega samninga og gert hafði verið við meðferðarheimilið á Hvítárbakka en Ríkisendurskoðun segir þá kröfu óréttmæta og ósanngjarna. Árni Magnússon sagði að greiða yrði rekstaraðilum bætur, allt að fjórtán milljónir. Í niðurstöðu Ríkisendurskoðunnar segir hins vegar að kjósi félagsmálaráðuneytið að bæta það sem skort hefur upp á í samanburði við önnur heimili verði slík greiðsla að vera hófleg, enda ekki greiðsla sem meðferðarheimilið eigi lögvarinn rétt til. Þá yrði taka tillit til þess að heimilið hefur ekki veitt fulla þjónustu á þessu ári, til neitunarvalds Torfastaðar við inntökubeiðnir og umfangsmikils búrekstrar og þátttöku vistbarna í honum. Í niðurstöðu Ríkisendurskoðunar er bent á að starfsaðferðir Barnaverndarstofu við útboð á rekstri meðferðarheimila hafi vakið athygli á erlendum vettvangi. Þannig hafi OECD bent á þær sem „best practice“, eða besta framkvæmd, í tilmælum til aðildarríkja sinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×