Sport

UEFA leyfir gervigrasvelli

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, tók í dag þá ákvörðun að leyfa keppni á gervigrasvöllum í leikjum á vegum sambandsins, bæði í leikjum félagsliða sem og í landsleikjum. Ákvörðun þessi mun taka gildi næsta haust. Þetta tjáði Lars-Christer Olsson, formaður framkvæmdarnefndar UEFA, fjölmiðlum í dag. "Þörfin [fyrir gervigrasvelli] hefur verið mikil svo áratugum skiptir, sérstaklega fyrir þjóðir þar sem veturinn er langur. Nú eru gæði [gervigrasvalla] orðin það mikil að þeir eru sambærilegir eða jafnvel betri en vellir sem lagðir eru náttúrulegu grasi", sagði Olsson en bætti við að gervigrasvellirnir yrðu að standast ákveðnar gæðakröfur til þess að verða leyfilegir. Framkvæmdarnefndin tók einnig á fundi sínum í gær til umfjöllunar tillögu um að setja þak á fjölda leikmanna í hverju liði og auka þátt uppaldra leikmanna. Tillagan felur það í sér að hvert lið verði að hafa að minnsta kosti átta uppalda leikmenn í liði sínu .



Fleiri fréttir

Sjá meira


×