Sport

Jón Arnór spilaði félagana uppi

Jón Arnór Stefánsson spilaði uppi félaga sína í 27 stiga stórsigri Dynamo St. Pétursborgar, 75-102, á KK Belgrad í öðrum leik liðsins í Evrópudeild félagsliða sem fram fór í Serbíu í fyrrakvöld. Jón Arnór gaf 8 stoðsendingar og stal 6 boltum á þeim 30 mínútum sem hann lék auk þess að skora 8 stig en hann skaut aðeins sex sinnum á körfuna og hitti fjórum sinnum. Jón Arnór náði einnig að verja eitt skot og taka eitt frákast. Kelly McCarty skoraði mest fyrir Dynamo eða 30 stig, Hvítrússinn ungi Vladimir Veremeenko skoraði 17 stig og annar Evrópubúi, Ognjen Askrabic, skoraði 16 stig en hann er einmitt frá Serbíu og Svartfjallalandi. Dynamo hefur unnið fyrstu leiki sína á afar sannfærandi hátt því ísraelska liðið Hapoel Tel Aviv steinlá, 98-54, í fyrsta leiknum. Bæði KK Belgrad og Hapoel Tel Aviv hafa síðan unnið leik í riðlinum og því lítur þetta vel út fyrir Dynamo. Jón Arnór var með 13 stig og 4 stoðsendingar í fyrsta leiknum og er því með 10,5 stig, 6 stoðsendingar og 3,5 stolna bolta að meðaltali í fyrstu leikjum Íslendings í Evrópudeildinni. Næsti leikur Dynamo í Evrópudeildinni er gegn Khimik Yuzhny frá Úkraínu sem hefur unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum en tapaði fyrir KK Belgrad í fyrsta leik. Dynamo náði að rífa sig upp eftir fyrsta tap vetrarins í rússnesku deildinni um síðustu helgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×