Innlent

Ekkert nýtt um verkfall á Alþingi

"Ég hélt að stjórnarandstaðan hefði efnt til utandagskrárumræðu til að koma með raunhæfar lausnir til að leysa verkfall kennara. Hver er síðan lausnin? Jú, hún er að dæla meiri peningum inn í deiluna," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra eftir að hafa hlýtt á álit og tillögur stjórnarandstöðunnar í kennaradeilunni í gær. Pétur Bjarnason, varaþingmaður Frjálslynda flokksins og málshefjandi, spurði menntamálaráðherra hvort tími hjásetu ríkisstjórnarinnar væri ekki löngu liðinn, hvað hann teldi að ríkisstjórnin geti gert til að höggva á þennan hnút og þá hvenær. Þorgerður svaraði því til að menntamálaráðuneytið stefndi á að bæta börnunum upp það tjón sem rof í kennslu þeirra hefði valdið. Það yrði erfiðara með hverjum deginum sem liði. Hún sagði einnig að lagasetning í kjaradeilu hlyti að vera neyðarúrræði. "Við höfum reynslu af lagasetningu og hún er slæm. Hún leysir lítinn vanda, heldur líkt og báðir deiluaðilar hafa þegar bent á, skýtur honum einungis á frest. Lagasetning er því að mínu mati þrautalending," sagði Þorgerður. Hvenær leysa ætti vandann lét hún ósagt. Gunnar I. Birgisson, formaður menntamálanefndar Alþingis, var fjarverandi þegar umræðan fór fram. Hann hefur sagt að deilendur fái tæplega tvær vikur til að ná samkomulagi áður en lög verði sett á verkfallið. Dagný Jónsdóttir, varaformaður menntamálanefndar, sagði lagasetningu ekki hafa komið til umræðu í nefndinni. Henni hugnist ekki lagasetning og stjórnvöld hefðu ekki tekið afstöðu til hennar. Ólafur Loftsson, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, sat ásamt fleiri kennurum á áheyrendapöllunum og fylgdist með umræðunni. Hann sagði þær engu breyta fyrir stöðu kennara í landinu hefði ríkisstjórnin ekki í hyggju að grípa inn í deiluna. Hann hefði ekki orðið fyrir vonbrigðum með utandagskrárumræðuna en hefði vonast eftir að þingmenn hefðu meira fram að færa: "Það vissu allir að staðan væri alvarleg."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×