Erlent

Í hlutverki spellvirkjans

Michael Badnarik, forsetaefni Frjálshyggjuflokksins, gerir sér ekki vonir um að hafa sigur í einu einasta ríki Bandaríkjanna á kjördag. Hann og stuðningsmenn hans vona hins vegar að þeir geti haft áhrif á úrslitin í tveimur ríkjum þar sem svo litlu munar á George W. Bush og John Kerry að fá atkvæði geta ráðið úrslitum. Frjálshyggjuflokkurinn einbeitir sér að tveimur ríkjum, Nýju-Mexíkó og Nevada. Þangað beina þeir öllu fé sínu, atorku og auglýsingum. "Við leituðum að tveimur ríkjum þar sem við gætum ráðið úrslitum um það hvoru megin sigurinn lendir," sagði Geoffrey Neale, aðgerðastjóri Frjálshyggjuflokksins. Þeim er sama hvoru megin sigurinn lendir svo framarlega sem árangur þeirra í ríkjunum verður til þess að vekja athygli á Frjálshyggjuflokknum og þeim vanda sem aðrir flokkar en demókratar og repúblikanar standa frammi fyrir vegna þess hvernig kosningakerfið er byggt upp. Forsetaframbjóðandi Frjálshyggjuflokksins, Michael Badnarik, er fimmtugur tölvuforritari frá Austin í Texas. hann er fjórði forsetaframbjóðandinn í sögu flokksins. Harry Browne, sem fór í framboð fyrir fjórum árum, fékk 350 þúsund atkvæði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×