Erlent

Ég vil ekki deyja eins og Bigley

"Hjálpið mér, hjálpið mér. Þetta gætu verið síðustu klukkustundir mínar. Vinsamlegast hjálpið mér," sagði Margaret Hassan grátandi á myndbandi sem komið var til al-Jazeera sjónvarpsstöðvarinnar. Hassan er stjórnandi CARE hjálparsamtakanna og var hneppt í gíslingu á dögunum. Hassan bað breskan almenning um að fara þess á leit við Tony Blair forsætisráðherra að kalla breskar hersveitir heim frá Írak og að flytja þær alls ekki til Bagdad. Hún sagði það veru hersveitanna að kenna að fólk eins og hún og Kenneth Bigley væru tekin í gíslingu. "Ég vil ekki deyja eins og Bigley," sagði hún. Bigley var hnepptur í gíslingu ásamt tveimur Bandaríkjamönnum. Þegar Bretar urðu ekki við kröfum gíslatökumanna um að fara frá Írak myrtu þeir Bigley og sendu myndband af aftöku hans til sjónvarpsstöðva. Margaret Hassan hefur sinnt hjálparstarfi í Írak um þriggja áratuga skeið. Eftir birtingu myndanna í gær hvöttu breskir og írskir ráðamenn gíslatökumennina til að sleppa henni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×