Innlent

Mikilvægast er að skipta máli

Eitt það mikilvægasta fyrir geðsjúkt fólk er að skipta máli í lífinu, hafa hlutverk í samfélaginu og finna að hlustað sé á það, segja fjórir geðsjúkir viðmælendur. Allir eru þeir nú þátttakendur í samfélaginu, án innlagna, með stuðningi Hugarafls. Eitt það mikilvægasta í lífinu fyrir geðsjúkt fólk er að hafa hlutverk í lífinu og finna að það skipti máli. Þetta segja fjórir viðmælendur Fréttablaðsins, þau Stefanía Margrét Arndal, Svava Ingþórsdóttir, Bergþór Grétar Böðvarsson og Garðar Jónasson sem öll eru félagar í Hugarafli. Öll hafa þau kljáðst við geðsjúkdóma. Sum þeirra hafa orðið mikið veik, þurft inn á geðdeildir, en önnur hafa sloppið betur. Nú eiga þau eitt sameiginlegt, þau starfa í Hugarafli og sú vinna hefur skilað sér í bata, eða eins og Garðar orðar það: "Ég hef verið "utan þjónustusvæðis" í á þriðja ár, þökk sé Hugarafli." Hann rifjar lauslega upp tímann áður en hann gekk í Hugarafl: "Ég var á geðdeild. Ég tók ofsaleg reiðiköst. Enginn skildi mig, vildi né kunni að tala við mig." Nú eru þau fjögur hluti af stærri hóp í Hugarafli, sem unnið hefur verkefni inni á geðdeildum Landspítalans, sem halda á áfram að þróa í samvinnu við spítalann, þannig að úr verði bætt, þar sem fólki sem þar dvelur hefur þótt miður fara í meðferðinni. Fjórmenningarnir leggja ríka áherslu á að geðsjúkir þurfi að fá að taka þátt í meðferðinni, svo sem lyfjanotkun og fleiru. "Það er mikilvægt að vera með í stefnumótun og fá að þróa verkefni," segja þau. "Það er til dæmis mjög sterkt að geta fengið að tjá sig og vita að það er hlustað á mann. Ítrekaðar innlagnir á geðdeild skaða sjálfsmynd fólks. Þar hafa menn ekki nóg fyrir stafni og allt iðjuleysi hefur afar slæm áhrif á geðið. Ef menn liggja mikið fyrir veikjast þeir bara meira, því líkami og sál spila saman. Það vantar því sárlega sjúkraþjálfara á deildirnar, svo og að iðjuþjálfi væri staðsettur þar." Þau benda jafnframt á að félagsráðgjafi þyrfti að koma fyrr inn í ferlið, þegar fólk er orðið svo veikt að það þarf að leggjast inn á geðdeild. Þegar svo sé komið, sé það oft komið með þunga byrði á bakið. Það geti verið bugað af fjármálaáhyggjum. Það geti verið heimilislaust. Það sé kannski búið að slíta tengsl við vini og fjölskyldu. Alla þessa þætti þurfi að byggja upp samhliða, það er iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, sálfræðiráðgjöf og félagsráðgjöf, til að fólk gangi ekki vegalaust og vonlaust út í samfélagið aftur eftir að hafa legið á geðdeildum, til þess eins að leggjast þar inn aftur. Þá vanti algjörlega eftirfylgni eftir að fólk er komið út, til að það geti höndlað nauðsynlega hluti í daglegu lífi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×