Erlent

Efast enn um kosningakerfið

Jimmy Carter, fyrrum Bandaríkjaforseti, segir langt í land áður en hægt verður að tryggja heiðarlegar kosningar í Flórída þar sem öruggt er að úrslitin verði í samræmi við vilja kjósenda. Carter skrifaði grein í Washington Post þar sem hann útskýrði hvers vegna stofnun hans, The Carter Center sem hefur gegnt kosningaeftirliti víða um heim, mun ekki fylgjast með framkvæmd kosninganna í Flórída. Hann sagði nokkrar ástæður fyrir því kosningar í Flórída uppfylltu ekki þær kröfur sem gerðar eru til kosninga á alþjóðlegum vettvangi. Helsta ástæðan sem Carter nefnir er sú að kosningastjórnin er ekki óháð eins og æskilegt sé heldur stýri mjög flokkspólitískir einstaklingar henni. Þetta segir hann meðal annars endurspeglast í því að undanfarið hefði verið reynt að útiloka 22 þúsund blökkumenn af kjörskrá en aðeins 61 einstakling af suður-amerískum uppruna vegna afbrota. Þeir fyrrnefndu þykja líklegri til að styðja demókrata en þeir síðarnefndu repúblikana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×