Erlent

Olíuverð hækkar í kjölfar Ívans

Verð á olíu í heiminum hækkaði mikið í liðinni viku og hefur aldrei verið hærra. Áhyggjur af minnkandi birgðum í Bandaríkjunum og fellibylurinn Ívan eru talin valda hækkuninni að þessu sinni. Hækkunin nam fjórum bandaríkjadölum og var verðið 48,9 dalir á tunnu þegar markaðir lokuðu á föstudag, litlu hærra en 19. ágúst í sumar þegar það náði síðast hámarki. Georg Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur heimilað að lánað verði af neyðarolíubirgðum landsins vegna áfalla sem olíuframleiðendur við Mexíkóflóa urðu fyrir í fellibylnum. Um fjórðungur olíu- og gasframleiðslu Bandaríkjanna fer fram í flóanum og talið er að olíframleiðslan hafi dregist saman um tíu milljónir tunna vegna eyðileggingarinnar. John Kerry, forsetaframbjóðandi Demókrata, gagnrýndi Bush á fimmtudag fyrir að bregðast ekki fyrr við hækkuninni. Talsmenn forsetans sögðu hins vegar að birgðirnar ætti aðeins að nýta í neyðartilfellum, en ekki til að hafa áhrif á olíuverð. Talið er að þær dugi Bandaríkjamönnum í rúman mánuð verði algjör skortur á olíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×