Erlent

Enn neyðarástand í Darfur

"Þetta er neyðarástand sem er enn í gangi. Enn er verið að myrða fólk, nauðga og hrekja það frá heimilum sínum í Darfur," sagði Irene Khan, framkvæmdastjóri Amnesty International þegar samtökin kynntu niðurstöður rannsóknarnefndar sem kannaði ástandið í Darfur-héraði í Súdan. Fulltrúar Amnesty sögðu nýju rannsóknina, sem var gerð í síðustu viku, staðfesta fyrri greiningu samtakanna á því að arabískar vígasveitir sem nytu stuðnings stjórnvalda hefðu ráðist á þorp þeldökkra íbúa Darfur, stundum með aðstoð súdanskra hersveita. Rannsóknarnefndin skoðaði þorp þar sem vígasveitir og hermenn höfðu myrt óbreytta borgara og rænt og brennt heimili íbúanna. Khan sagði viðbrögð stjórnvalda og embættismanna afar misjöfn. Sumir hefðu viðurkennt mannréttindabrot en aðrir þvertekið fyrir að nokkuð slíkt hefði átt sér stað. "Slík afneitun er móðgun við fórnarlömbin," sagði hún og kvað of lítið gert til að stöðva árásir á þeldökka íbúa Darfur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×