Erlent

Tala látinna nálgast 700

Tala látinna í flóðum og aurskriðum á Haítí í kjölfar fellibylsins Jeanne er komin yfir 660 og er búist við að fleiri lík eigi eftir að finnast. Það er aðallega norðurhluti landsins sem varð illa úti og í strandbænum Gonaives sem liggur að mestu undir vatni hafa fundist fimm hundruð lík. Þar hefst fólk enn við á húsþökum og kemst hvorki lönd né strönd fyrir flóðunum. Þá er mjög óttast um afdrif íbúa á lítilli eyju undan ströndum landsins sem virðist nánast öll vera á floti. Björgunarstörf eru rétt að byrja en erfitt hefur verið að komast til þeirra staða sem verst urðu úti. Yfirvöld á Haíti hafa beðið um alþjóðlega aðstoð vegna flóðanna. Flóð leika landið að öllu jöfnu mjög grimmt þar sem gróðureyðing er gríðarleg. Til marks um hversu miklu munar um gróðureyðinguna þá létust ellefu af völdum þessa sama fellibyls í Dóminikanska lýðveldinu sem er nágrannaríki Haíti og liggur á sömu eyju.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×