Erlent

Danir vilja hermennina heim

Meira en helmingur Dana vill að danskir hermenn verði kallaðir heim frá Írak ef kosningar verða ekki haldnar í landinu í janúar. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar Gallup sem kynntar voru í gær. Margir hafa orðið til að efast um að mögulegt reynist að halda kosningar í Írak 31. janúar. Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði í síðustu viku að það yrði ekki hægt að halda trúverðugar kosningar ef öryggismálin væru eins og þau eru nú. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur einnig lýst áhyggjum af því hvort hægt verði að halda kosningar. Samkvæmt könnuninni vilja 54 prósent Dana að hermennirnir verði kallaðir heim verði ekki kosið í Írak. Um 41 prósent vilja hins vegar að hermennirnir verði áfram í Írak þótt það verði ekki kosið. Fimm prósent aðspurðra sögðust ekki hafa neina skoðun á málinu. Alls er 501 danskur hermaður í Írak en þeir fyrstu komu þangað í fyrra. Á þeim tíma hefur einn danskur hermaður látist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×