Innlent

Ríkið verður að bregðast við

Nauðsynlegt er að hið opinbera draga saman seglin til að valda ekki aukinni þenslu í þjóðfélaginu að sögn Ólafs Darra Andrasonar, hagfræðings Alþýðusambands Íslands. Í Fréttablaðinu á laugardaginn lýstu bæði Sigurður Bessason, formaður Eflingar - stéttarfélags, og Halldór Björnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, yfir áhyggjum af því að verðbólga væri yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Höfðu þeir áhyggjur af því að sú þróun héldi áfram og að þar með myndu forsendur kjarasamninga bresta. "Þótt ég hafi áhyggjur af ástandinu þá eru forsendur kjarasamninga ekki brostnar," segir Ólafur Darri. "Það eru enn tækifæri til að koma í veg fyrir það. Við leggjum áherslu á að notuð verði þau hagstjórnartæki sem til eru til að koma í veg fyrir að forsendurnar bresti. Það kom okkur ekki á óvart að Seðlabankinn skyldi hækka vexti á föstudaginn. Við tökum líka undir með Seðlabankanum um að ríkisvaldið verði að sýna verulegt aðhald og koma með trúverðuga langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Ef skattar verða lækkaðir eins og búið er að boða þá verður að lækka ríkisútgjöld enn frekar." Eftir undirritun kjarasamninganna síðasta vetur, sem voru til fjögurra ára, var skipuð sérstök nefnd sem í sitja fulltrúar verkalýðsforystunnar og Samtaka atvinnulífsins. Nefndin hefur það hlutverk að fara yfir forsendur kjarasamninga. Ólafur Darri, sem situr í nefndinni, segir að næsta haust muni nefndin hittast og fara yfir málin. Aðspurður hvort útlit sé fyrir að það geti gerst fyrr segist hann ekki eiga von á því. Hann segir að ef komist verði að þeirri niðurstöðu næsta haust að forsendur séu brostnar geti einstök félög sagt upp kjarasamningum, ef það gerist verði þeir lausir um áramótin 2006. Í desember árið 2001 gerðu Alþýðusambandið, Samtök atvinnulífsins og ríkið samkomulag um aðgerðir til stemma stigu við verðbólgu. Þá var dregið svokallað rautt strik sem verðbólgan átti að vera undir. Ólafur Darri segir að staðan sé svolítið önnur núna. "Við erum að horfa fram á að hlutirnir geti farið úr böndunum en í desember 2001 voru þeir farnir úr böndunum," segir Ólafur Darri. "Það sem við erum að gera núna er að koma með varnaðarorð til þess að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×