Erlent

Breskir hermenn heim

Bretar hafa ákveðið að kalla heim meirihluta hermanna sinna í Írak, þrátt fyrir að ástandið þar fari hríðversnandi. Sunnudagsblaðið Observer greinir frá þessu í dag, en samkvæmt frétt blaðsins verða ekki sendir hermenn í staðinn fyrir þá sem ljúka þjónustu í Írak og halda heim á leið. Þannig verður aðeins um þriðjungur breska fastaliðsins í Írak eftir í lok októbermánaðar, en sem stendur eru 5000 hermenn í því liði. Geoff Hoon, varnarmálaráðherra, sagði í gærkvöldi að til greina kæmi að senda liðsauka í kringum kosningar í landinu, en greinarhöfundur Observer hefur eftir heimildarmönnum sínum að liðsaukinn verði ekki endilega breskur. Þessi fækkun hermanna þykir til þess fallin að vekja ótta bæði í Bagdad og Washington, enda gefur ástandið í Írak ekki tilefni til þess að ætla að tímabært sé að fækka í herliðinu þar. Margir Írakar sem og sérfræðingar eru á því að heldur þyrfti að fjölga í liðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×