Erlent

Kosningar í Írak á næsta ári

Kosningar verða haldnar í Írak í byrjun næsta árs sama hvað tautar og raular, segir Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks. Hann er því ósammála Colin Powell og Kofi Annan sem telja skálmöldina í landinu útiloka kosningar eins og stendur. Allawi fundaði í morgun með Tony Blair í Lundúnum, og ítrekaði eftir það að fyrstu lýðræðislegu kosningarnar í Írak yrðu haldnar í janúar á næsta ári. Hvergi yrði kvikað frá tímaáætlun þar að lútandi. Hann hvatti jafnframt Sameinuðu þjóðirnar til að gera sitt til að skipuleggja kosningarnar. Utanríkisráðherra Íraks gagnrýndi í morgun samtökin fyrir að gera lítið til að hjálpa. Hann sagði aðeins um þrjátíu alþjóðlega starfsmenn Sameinuðu þjóðanna í Bagdad, og að þetta dyggði ekki til. Kofi Annan sagði í vikunni að kosningar sem haldnar yrðu undir þeim kringumstæðum, sem ríkja í Írak, yrðu ekki trúverðugar og Colin Powell tók undir það, en setti þann fyrirvara að hann gerði fastlega ráð fyrir því, að ástandið hefði tekið miklum breytingum fyrir kosningarnar í janúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×