Erlent

Vöruðu Blair við upplausninni

Ári áður en innrásin í Írak hófst var búið að vara Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, við því að ekki væri hægt að tryggja stöðugleika í stjórnarfari Íraks öðru vísi en að hafa fjölmennt herlið í landinu í mörg ár eftir að innrás lyki. Frá þessu greindi breska dagblaðið Daily Telegraph sem komst yfir leyniskjöl um aðdraganda innrásarinnar. Jack Straw, þáverandi utanríkisráðherra Bretlands, skrifaði Blair bréf í mars 2002 þar sem hann varaði við því að innrás í Írak myndi leiða til margvíslegra vandamála. Í bréfinu sagði hann að enginn væri með það á hreinu hvað kæmi til með að gerast eftir innrás. "Enginn hefur svarað því á fullnægjandi hátt hvernig ábyrgjast megi að ný ríkisstjórn verði eitthvað skárri en sú sem er fyrir," sagði Straw í bréfi sínu til Blair. Embættismenn vöruðu við því að eina leiðin til að hægt væri að kalla herinn heim fljótlega eftir innrás væri að koma öðrum einræðisherra til valda þegar Saddam Hussein væri steypt af stóli. Það tryggði þó ekki að Írakar kæmu sér ekki upp gjöreyðingarvopnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×