Erlent

Erfitt verk fyrir Ahern og Blair

Tíminn hleypur frá Tony Blair og Bertie Ahern, sem vildu endurvekja friðarsamkomulagið á Norður-Írlandi fyrir hádegi í dag. Engar líkur eru á að þeim takist ætlunarverk sitt, þar sem mikið ber í milli deilenda. Forsætisráðherrarnir Blair og Ahern sitja í Leeds-kastala og funda með fulltrúum mótmælenda og kaþólikka á Írlandi. Tilgangur viðræðnanna er að blása nýju lífið í andvana friðarsamkomulag frá árinu 1998 og kennt hefur verið við föstudaginn langa. Heimastjórn á Norður-Írlandi og þing þar sem fulltrúar allra hópa sátu var megininntak þess samkomulags, sem fór út í veður og vind árið 2002 þegar mótmælendur harðneituðu að sitja áfram í stjórn sem Sinn Fein, stjórnmálaarmur írska lýðveldishersins IRA, ætti hlut að. Blair og Ahern settu sér það markmið að ná samkomulagi fyrir hádegi, og vildu að írski lýðveldisherinn leggði niður vopn í von um að þannig mætti bjarga samstjórn mótmælenda og kaþólikka. Haft er eftir embættismanni í Leeds-kastala, þar sem viðræðurnar fara fram, að í gærkvöldi hafi horfurnar ekki verið góðar og að mjög litlar líkur séu á að forsætisráðherrarnir tveir nái markmiði sínu. Ástæðan er ekki síst sú að mótmælendaflokkur harðlínuprestsins Ians Paisleys þvertekur fyrir að ræða við fulltrúa Sinn Fein, en þessir flokkar fengu einna mesti fylgi í síðustu kosningum á Norður-Írlandi, fyrir tæpu ári. Drög að yfirlýsingu frá IRA liggja fyrir, og nú veltur allt á því hvernig menn Paisleys taka á þeim drögum. Nú á hádegi átti viðræðunum að ljúka, og vonlaust að halda þeim áfram þar sem brúðkaup á að fara fram síðdegis í Leeds-kastalanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×