Erlent

Enn ein sjálfsmorðsárásin

Sjálfsmorðsárás kostaði tuttugu og þrjá lífið fyrir utan höfuðstöðvar írakska þjóðvarðliðsins í borginni Kirkúk í morgun. Fjöldi fórnarlambanna var enn á táningsaldri. Þetta er þriðja mannskæða árásin á öryggissveitir Íraka í vikunni. Árásarmaðurinn ók bíl sínum upp að bakdyrum höfuðstöðva þjóðvarðliðsins í Kirkúk, en þær snúa út í íbúðarhverfi. Í kring stóð hópur fólks sem beið þess að sækja um starf hjá þjóðvarðliðinu, en víða í Írak eru einu störfum sem er að fá hjá þjóðvarðliðinu eða lögreglunni. Árásarmaðurinn sprengdi sig og bílinn í loft upp með þeim afleiðingum að 23 féllu, og 53 særðust. Sumir þeirra eru þungt haldnir. Líkamshlutar, skór og brak liggur á víð og dreif á vettvangi og sjúkraflutningamenn flytja fórnarlömbin, sem sum hver voru enn á táningsaldri, á brott. Þetta er þriðja mannskæða sjálfsmorðsárásin sem gerð er á öryggissveitir Íraka í vikunni. Írakskir hryðjuverkamenn hótuðu í morgun að drepa einn breskan og tvo bandaríska gísla innan tveggja sólarhringa. Mannræningjarnir krefjast þess að öllum kvenföngum í fangelsum í Abu Ghraib og Umm Quasar verði sleppt. Myndbandsupptaka með þremur mönnum, sem sagðir eru tilheyra hópi Abus Musabs al-Zarqawis, var leikin á fréttastöðinni al-Jazeera í morgun, og þar settu þeir fram þessar kröfur sínar. Undanfarið hálft ár hefur meira en hundrað útlendingum frá yfir tíu löndum verið rænt í Írak, og fleiri en þrjátíu hafa verið drepnir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×