Erlent

Danska þjóðin undrandi

Danska þjóðin er undrandi á fréttum um skilnað Jóakims Danaprins og Alexöndru, eiginkonu hans. Danir hafa tekið Alexöndru opnum örmum og hjónabandið, sem varað hefur í níu ár, hefur þótt vera hamingjuríkt. Orðrómur um að skilnaður væri yfirvofandi komst á kreik í morgun þegar boðað var til blaðamannafundar í dönsku konungshöllinni. Þar tók konunglegi hirðstjórinn á móti fréttamönnum og las upp formlega fréttatilkynningu um málið. Í henni kom meðal annars fram að Jóakim og Alexandra hafi, eftir erfiða íhugun, komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að skilja. Þau eru sammála um skilnaðarskilmálana og munu hafa sameiginlegt forræði yfir börnunum. Jóakim, sem er 35 ára, og Alexandra, sem er fertug, kynntust í heimalandi hennar, Hong Kong, árið 1994 og giftust ári síðar. Þau eiga tvo syni, Nikolai sem er fimm ára og er númer þrjú í röðinni til að erfa dönsku krúnuna, og Felix sem er tveggja ára. Þrátt fyrir að ástæðan sem gefin er upp fyrir skilnaðinum séu miklir erfiðleikar í sambandinu virðist sem hjónin skilji í mesta bróðerni og góðu samkomulagi og Alexöndru verður ekki úthýst úr dönsku konungsfjölskyldunni. Hún heldur prinsessutitli sínum þó hún missi hinn konunglega titil og heldur áfram að gegna opinberum skyldum. Alexandra og prinsarnir tveir flytjast í íbúð fjölskyldunnar í Amalie-borg í Kaupmannahöfn en Jóakim mun eftirleiðis búa í Schackenborgar-höll þar sem þau bjuggu saman áður. Þá munu foreldrar Alexöndru halda áfram að búa í höllinni með honum. Jóakim og Alexandra buðu af sér góðan þokka þegar þau komu í fimm daga heimsókn til Íslands fyrir þremur árum og gerðu víðreist um landið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×