Innlent

Vindhviður á við slæman fellibyl

Þó svo að blásið geti hressilega á Íslandi eru verstu illviðri hér tæpast hálfdrættingar á við illvíga fellibylji sem geisa nær miðbaug. Fellibylurinn Ívan til dæmis er með meðalvindhraða upp á 58 metra á sekúndu og meira. Meðalvindhraði í storminum sem hér gekk yfir í fyrrinótt og í gær fór alla jafna ekki yfir 30 metra á sekúndu og var nær 20 metrum víðast hvar, en slagar þó hátt í smæstu tegund fellibylja. Einstaka vindhviður náðu þó um og yfir 50 metrum á sekúndu en í hvirfilbyljum á borð við Ívan, sem þar til fyrir skömmu var af stærð þrjú til fjögur, fara hviður vel yfir 70 metra á sekúndu. Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að lægstu mörk fyrir fellibyl miði við 33 metra vindhraða á sekúndu. "Það er þá fellibylur af stærðinni einn, en Ívan er til samanburðar af stærðargráðunni fimm. Fellibylur er hins vegar alveg sér veðurfyrirbrigði og tæplega hægt að bera það saman." Á vef Veðurstofunnar kemur þó fram að mesti meðalvindhraði sem hér hafi mælst sé 62,5 metrar á sekúndu. Þessi hraði mældist undir Skálafelli við Esju. "Skálafellið er mjög sérstakt og raunar einnig Stórhöfði," segir Óli Þór og bendir á að á þessum stöðum liggi land þannig að þar nái að bæta í vind á meðan hann fer yfir. Sama er líklega hægt að segja um Freysnes á Öræfum þar sem vindhviða feykti þaki af Hótel Skaftafelli undir morgun í gær. Sveiflur í sjávarhita á Kyrrahafi við miðbaug geta af sér veðurfyrirbrigðin El Niño og La Nina sem haft geta gífurleg áhrif á veðurfar um allan hnöttinn. El Niño veðurfyrirbrigðið verður til þegar hiti sjávar hækkar mikið, en La Nina þegar sjávarhiti lækkar umfram það sem venjulegt getur talist. Meðal afleiðinga hitasveiflnanna eru fellibyljir, þurrkar, rigningar og flóð. Um þessar mundir telur Haf- og sjávarfræðistofnun bandaríska viðskiptaráðuneytisins að væg El Niño áhrif séu í uppsiglingu í austanverðu Kyrrahafi og að þeirra muni gæta fram á byrjun næsta árs. Trausti Jónsson veðurfræðingur segir að erfitt sé að fullyrða hvaða áhrif veðurfarsfyrirbæri á borð við El Niño hafi hér á landi þótt einhver séu þau. "Áhrifin eru tilviljanakennd og fara eftir árstíma og ástandi hér hjá okkur og fleirum. El Niño hefur ekki kerfisbundin áhrif hér sem hægt er að segja ákveðið til um," segir hann og telur frekar að hægt sé að benda á óbein, efnahagsleg áhrif. "El Niño hefur til dæmis fylgt fiskleysi við Perú, þannig að verð á fiskimjöli hækkaði. Á þessu græddum við en erum kannski ekki jafnháð slíkum sveiflum nú." Trausti segir að þótt bandaríska stofnunin telji að áhrifa El Niño gæti sé Alþjóðaveðurfræðistofnunin ekki alveg á sama máli. "Stofnunin telur að um helmingslíkur séu á að El Niño fari af stað nú," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×