Innlent

Kajakmennirnir við hestaheilsu

Kajaksleiðangursmenn Blindrafélagsins, sem bjargað var úr bráðum lífsháska við austurströnd Grænlands í gærkvöldi, eru allir fjórir við hestaheilsu en glötuðu öllum sínum búnaði og farangri í hafið. Eftir rúmlega níu hundruð kílómetra vel heppnaðan róður niður með Austurströndinni hrepptu þeir slíkt illviðri í fyrradag að þeir óskuðu eftir hjálp. Tveir Grænlendingar héldu til þeirra á báti og tóku leiðangursmenn og allan búnað þeirra um borð. Vegna veðurs var hins vegar ekki hægt að halda áleiðis til lands fyrr en í gær. Þá bilaði vélin í björgunarbátnum og hann tók að reka stjórnlaust að skerjóttri klettaströndinni. Sendu þeir út neyðarkall og var þyrla send af stað frá danska varðskipinu Triton og ísbrjót í grenndinni var stefnt í átt til þeirra. Ekki mátti tæpara standa að þyrlan næði þeim um borð því skömmu síðar brotnaði báturinn í spón og sökk með öllum farangrinum. Leiðangursmenn fengu hins vegar aðhlynningu í varðskipinu, voru fluttir í land og eru væntanlegir heim á þriðjudag.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×