Erlent

Áhyggjur af fjölgun jarðarbúa

Sameinuðu þjóðirnar vara við því að ef Vesturlönd auki ekki fjárveitingar sínar í sjóð samtakanna, sem notaður er til að bæta heilbrigðiskerfi landa þriðja heimsins og efla þar kvenréttindi og menntun, muni illa fara. BBC greindi frá því í gær að ef fram haldi sem horfi muni fólki í 50 fátækustu löndum heimsins fjölga um 1,7 milljarða á næstu 46 árum. Þá verða jarðarbúar um 8,9 milljarðar en þeir eru ríflega sex milljarðar í dag. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaíró árið 1994 hétu Vesturlönd að veita 440 milljörðum króna í sjóðinn fyrir árið 2004. Nú hefur komið í ljós að löndin hafa einungis veitt 220 milljörðum króna í sjóðinn. Bandaríkjastjórn hefur ekki látið krónu í sjóðinn síðustu þrjú ár þar sem hún segir forsvarsmenn sjóðsins hvetja til ólöglegra fóstureyðinga í Kína. Talið er að það kosti um 280 milljarða króna að veita þeim 200 milljón konum getnaðarvarnir sem ekki vilja eignast börn. Með því væri hægt að koma í veg fyrir 52 milljónir fæðinga á ári og sporna gegn 1,4 milljónum dauðsfalla barna við fæðingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×