Erlent

Kennsla hafin á ný í Beslan

Skólar í Beslan í Norður-Ossetíu hófu kennslu á ný í gær eftir að hafa verið lokaðir í tvær vikur, eða allt síðan eitt þúsund manns voru teknir í gíslingu í einum þeirra. Tæplega 350 manns, stærsti hlutinn börn, létust í uppgjöri hersins og gíslatökumannanna. Þau börn sem sluppu ómeidd frá gíslunum þurftu ekki að mæta í skólann. Fjöldi foreldra annarra barna hélt börnum sínum einnig heima, enn hræddir um að hryðjuverkamenn létu til skarar skríða á ný. Mínútuþögn var í öllum skólunum áður en kennsla hófst til að minnast fórnarlamba gíslatökunnar. Lögreglumenn og hermenn fóru í eftirlitsferðir um skólana áður en kennsla hófst til að ganga úr skugga um að engin hætta væri ferðum og engar sprengjur faldar. Ströng öryggisgæsla var síðan meðan kennsla fór fram. Alls eru 329 börn, konur og menn enn á sjúkrahúsi. Af þeim eru 122 í Moskvu en 209 í Norður-Ossetíu. Flestir þeirra sem eru á sjúkrahúsinu í Moskvu eru illa haldnir og um fimmtíu þeirra eru enn í lífshættu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×