Erlent

New Orleans í hættu vegna Ívans

Óttast er að fellibylurinn Ívan valdi miklum usla með fram suðurströnd Bandaríkjanna í nótt og á morgun. Háborg djassins, New Orleans, er í sérstakri hættu enda liggur hún að stórum hluta undir sjávarmáli. Íslendingur sem býr í borginni er þó hvergi banginn og ætlar að sitja af sér veðrið þó aðrir íbúar flýi unnvörpum.  Ívan grimmi heldur för sinni ótrauður áfram og stefnir nú á land í Bandaríkjunum. Tvær milljónir manna hafa flúið heimili sín, aðallega í þremur ríkjum: Flórída, Alabama og Louisiana. New Orleans borg er í sérstakri hættu. Borgin liggur að stórum hluta undir sjávarmáli og flóðbylgjur sem gjarnan fylgja fellibyljum geta því valdið gríðarlegu tjóni. Mikil umferðateppa hefur myndast út úr borginni. Berglind Garðarsdóttir, sem búið hefur í tíu ár í New Orleans, segir að umferðin hreyfist varla. Ekki er hægt að fá hótelgistingu nema á hótelum sem eru tíu akstursklukkustundir í burtu, og það í venjulegri umferð. Fólk sem fast er í umferðarteppunni sér eftir því að hafa lagt í hann, það komist t.d. ekki einu sinni á klósettið.   Berglind segist sjálf ætla að sitja sem fastast. Hún hefur reynsla af fellibyljum, sterkum stormum og miklum rigningum og segir að þá verði ákveðin hverfi mjög illa úti. Hún búi hins vegar ekki í einum af þeim hverfum. Berglind segist þó taka fullt mark á aðvörunum, búið sé að negla fyrir glugga í húsinu þar sem hún býr og hún er búin að verða sér úti um vistir, vatn og mat þannig að hún geti verið sjálfri sér næg í nokkra daga, ef til þess kæmi. Hún ætlar hins vegar ekki að flýja frekar en gömul kona sem býr í sömu götu. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×