Erlent

Skólahald í Beslan hefst að nýju

Allt skólahald hefur legið niðri í Beslan í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á barnaskóla númer eitt fyrir hálfum mánuði. Í dag voru aðrir skólar bæjarins hins vegar settir á nýjan leik, þar á meðal skóli sem er aðeins í um fjögur hundruð metra fjarlægð frá þeim skóla þar sem hryðjuverkamennirnir réðust til atlögu. Mörg barnanna sem í dag mættu prúðbúin í skólann áttu nána vini sem létust í árásinni. Börnin úr barnaskóla númer eitt, sem lifðu gíslatökuna, mæta þó ekki í skólann í bráð. Endurbyggja þarf skólahúsið sjálft og að auki eru mörg barnanna sem lentu í höndum hryðjuverkamannanna enn á sjúkrahúsi með sár bæði á líkama og sál. Pútín Rússlandsforseti sætir mikilli gagnrýni fyrir að ætla í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar að breyta kosningakerfinu í landinu og tryggja sér meiri völd. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur lýst þessari breytingu sem atlögu að lýðræðinu en starfsbróðir hans í Rússlandi sagði honum í dag að hætta að skipta sér af innanríkismálum annarra þjóða .



Fleiri fréttir

Sjá meira


×