Erlent

Réðust inn í breska þingið

Fimm menn réðust inn í breska þingið í dag með hrópum og köllum til að mótmæla fyrirhuguðu banni við refaveiðum. Það þykir með ólíkindum að mennirnir skyldu komast inn í þingsalinn enda á öryggisvarsla þar að vera pottþétt. Breskir þingmenn samþykktu í dag bann við refaveiðum á meðan um tíu þúsund andstæðingar veiðibannsins mótmæltu fyrir utan þingið. Margir urður sárir og blóðugir eftir slagsmál við lögregluna og á sama tíma dró til tíðinda inni í þinginu. Fimm menn, klæddir hvítum stuttermabolum, komu skyndilega hlaupandi úr tveimur áttum inn í þingsalinn og hófu hróp að ráðherranum sem hafði lagt tillöguna um veiðibannið fram. Öryggisverðir í kjólfötum fylgdu fast á hæla þeim og mennirnir voru að lokum yfirbugaðir og vísað á dyr. Málið þykir alvarlegt og er álitshnekkir fyrir bresku ríkisstjórnina, aðallega sökum þess að öryggismálin í þinginu áttu að vera í fullkomnu lagi. Ekki aðeins vegna hugsanlegrar hættu á hryðjuverkum heldur höfðu öryggismálin einnig verið vandlega yfirfarin í vor þegar tveir menn komust inn í þingið og köstuðu fjólublárri hveitisprengju að Tony Blair til að vekja athygli á málefnum feðra. Greinileg brotalöm er á öryggisvörslu æðstu ráðamanna í Bretlandi því skemmst er að minnast þess að karlmaður í líki Leðurblökumannsins spókaði sig á svölum Buckingham-hallar í fyrradag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×