Innlent

Útboð á eldsneyti fyrir ríkið

Sex fyrirtæki gerðu tilboð í sölu á eldsneyti og smurolíu á skip og flugvélar ríkisins en heildarmagn eldsneytis er hátt í sex milljónir lítra. Ríkiskaup ákváðu í fyrra að bjóða þetta út og ákvað útboðsfrest en hann hefur að minnsta kosti þrívegis verið framlengdur, eða þar til tilboð voru loks opnuð í gær. Um er að ræða eldsneyti og olíu á skip Hafrannsóknastofnunar, flugvél Flugmálastjórnar og á flugvélar og skip Landhelgisgæslunnar. Andvirði samningsins er að líkindum nokur hundruð milljónir króna og eftir talsverðu að slægjast hjá olíufélögunum. Félögin sem bjóða eru Essó, Skeljungur, Olís, Atlantsolía, Íslensk olíumiðlun á Norðfirði, í samstarfi við danskan olíumiðlara, og Kemi sem flytur inn Elf- olíuvörurnar. Eins og marga rekur sjálfsagt minni til þá flæktist Landhelgisgæslan að ósekju inn í rannsókn Samkeppnisstofnunar á meintu samráði olíufélaganna á þann hátt að þau hafi komið sér saman um hvaða félag hlyti þau viðskipti. En nú er Gæslan sem sagt að bjóða viðskiptin aftur út, áður en samráðsmálið er til lykta leitt. Engar tölur hafa verið gefnar upp þar sem Ríkiskaup ætlar að taka sér nokkrar vikur í að yfirfara tilboðin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×