Erlent

Framhjáhald verði ekki refsivert

Hundruð tyrkneskra kvenna gengu í mótmælaskyni um götur Ankara í gær til að sýna í verki andúð sína á fyrirætlan ríkisstjórnarinnar um að gera framhjáhald að refsiverðu athæfi samkvæmt lögum. Fyrirhugaðar lagabreytingar eru hluti af endurskoðun tyrknesku hegningarlaganna, en þeim var síðast breytt fyrir nær átta áratugum. Breytingin mun fela í sér þyngri refsingar gegn nauðgurum, barnaníðingum, þeim sem stunda pyntingar og mansal og mæðrum sem myrða börn sín sem fæðast utan hjónabands. Þá mun lagabreytingin gera nauðgun í hjónabandi og kynferðislega áreitni að refsiverðu athæfi. Forsætisráðherra landsins, Recep Tayyip Erdogan, segir að nýju lögin muni vernda fjölskyldur og konur sem hafa sætt misrétti af hendi eiginmanns síns. Tyrkneskar konur halda því hins vegar fram að lögin verði notuð gegn konum. Þær muni enda í fangelsi og tapa forræði yfir börnum sínum. Konuirnar vara við því að lögin muni ýta undir ærumorð þar sem fjölskyldumeðlimur myrðir stúlkur eða konur fyrir að vanvirða fjölskyldu sína. Þá hafa leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins varað við því að lög gegn framhjáhaldi muni standa í vegi fyrir inngöngu Tyrklands í ESB.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×