Erlent

Fjölgar í fátækrahverfum

Fjöldi þeirra sem búa í fátækrahverfum mun að líkindum tvöfaldast fram til ársins 2030, og segja sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna ástæðu til að óttast að fátækrahverfi verði gróðrarstía öfgamanna. Borgarbúum mun stórfjölga á næstu árum, samkvæmt því sem kemur fram í nýrri skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sent frá sér. Árið 2030 er talið að sextíu prósent íbúa jarðar muni búa í borgum, og er gert ráð fyrir að fjölgunin verði mest í fátækari borgumog fátækrahverfum. Alls er reiknað með að ein milljón manna flytji til borga á hverjum degi, flestir þeirra flytja til stórborga með meira en milljón íbúa og stór hluti þessara nýju borgarbúa verða innflytjendur. Höfundar skýrslunnar segja stórhættu á að þær aðstæður myndist, sem auki líkurnar á því að öfgamenn fái hljómgrun. Fátækt og vonleysi í fátækrahverfum og menningarleg gjá milli nýbúa og þeirra sem fyrir eru telja þeir kjörlendi öfgahópa, og segja nauðsynlegt að grípa þegar til aðgerða til að koma í veg fyrir ófremdarástand. Hnattvæðing er meðal þess sem veldur þessum vanda, samkvæmt skýrslunni. Þegar fyrirtæki segja upp starfsfólki í einu landi til að ráða fólk á lægri launum annars staðar getur það haft afar neikvæðar afleiðingar á báðum stöðum, þar sem þeir sem missa vinnuna standa eftir atvinnulausir eða taka oft vinnu sem býður ekki sömu tryggingar og laun. Í þeim löndum sem störfin verða til geta alþjóðafyrirtæki að sögn skýrsluhöfunda notað stærð sína og efnahagslegan mátt til að sniðganga þar ýmsar reglur um starfsöryggi eða umhverfisvernd. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir í formála skýrslunnar, að margar borgir glími við vaxandi fátækt, breikkandi gjá milli ríkra og fátækra, spillingu, glæpi og ofbeldi. Skýrsluhöfundar segja að með hliðsjón af þeim fjölda sem búa muni í borgum innan fárra ára, verði að takast á við þessi vandamál þegar í stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×