Erlent

Ivan inn á Mexicoflóa

Fellibylurinn Ívan er nú kominn langleiðina inn á Mexíkóflóa og stefnir í átt að norðvesturströnd Flórída. Hann olli usla á Kúbu í nótt, en mildi þykir að enginn skildi týna þar lífi. Ívan er ennþá gríðarlega kraftmikill og vindhraðinn er yfir sjötíu metrar á sekúndu. Miðja stormsins sneyddi hjá Kúbu í gær, en þar urðu engu að síður talsverðar skemmdir; þök fuku á húsum og tré rifnuðu upp með rótum. Rafmagnslaust er á köflum, en á heildina þykja eyjaskeggjar hafa sloppið vel, til að mynda hafa engar fregnir af mannfalli borist. Ívan færist nú nær Mexíkóflóa og segja bandarískir veðurfræðingar jafnsterkan byl líklega aldrei fyrr hafa komið inn á flóan. Í Cancun á Júkatan-skaga í Mexíkó fóru íbúar og ferðamenn ekki varhluta af veðurofsanum, og var þeim skipað að halda sig innan dyra. Ekki er vitað fyrir víst nákvæmlega hvert Ívan stefnir eftir stuttan stans á flóanum, en þó er talið líklegt að hann gangi á land á norðvesturströnd Flórídaskaga eða suðurströndinni nær New Orleans. Íbúum á því svæði hefur verið ráðlegt að búa sig undir fárviðri. Olíuborpallar undan ströndinni hafa verið rýmdir og fylgjast sérfræðingar á olíumörkuðum náið með framvindu mála af ótta við að veðurofsinn gæti haft áhrif á olíuframleiðslu í Mexíkóflóa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×