Erlent

Pútín herðir tökin

Völdin færast á fárra hendur í Rússlandi, þar sem Vladímír Pútin, forseti , vill herða baráttu gegn hryðjuverkum. Til þess að það gangi sem best leggur hann til breytingar sem færa honum meiri völd en nokkri sinni síðan að Sovétríkin liðu undir lok. Pútín er þeirrar skoðunar, að ekki hafi tekist sem skildi að koma á fót sterku ríki í Rússlandi, og að það hafi berlega komið í ljós í Beslan. Tillögur Pútíns felast meðal annars í því, að framvegis verði ríkisstjórar og forsetar í sjálfstjórnarhéruðum og sjálfstjórnarlýðveldum tilnefndir af stjórnvöldum í Kreml. Hlutverk héraðsþinga yrði þá aðeins að staðfesta tilnefningu kandídats stjórnvalda. Að auki vill Pútín gera umbætur á kosningafyrirkomulagi þannig að allir þingmenn verði valdið af flokkslistum, en enginn kosinn einstaklingskosningu eins og nú er. Allt myndi þetta stórauka völd Pútíns. En hann vill líka grípa til aðgerða til varnar hryðjuverkum. Í mörgum löndum sem hryðjuverkamenn hafa beint sjónum sínum að var komið á fót stofnunum til að gæta öryggis landsmanna. Við þurfum sams konar stofnanir í Rússlandi, til að skipuleggja öryggi landsins gegn hryðjuverkum og afleiðingum þeirra og einnig til þess að fyrirbyggja aðgerðir hryðjuverkamanna. Slíkt fyrirkomulag myndi gera það að verkum að við yrðum skrefi á undan hryðjuverkamönnum og gætum náð þeim út úr fylgsnum sínum og ef þess gerist þörf, náð þeim úr felum erlendis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×