Innlent

Ryðsveppur að breiðast út

Ryðsveppur á ösp er tekinn á breiðast út á einstökum svæðum þar sem sveppsins hefur ekki verið vart áður. "Ryð er komið að lóni í austri og um allan Borgarfjörð í vestri, en ekki á Snæfellsnes eða í Dalina. Á Norðurlandi hefur ryðs svo orðið vart á einum stað, Gunnfríðarstöðum, þannig að þetta er farið að breiðast út á einstökum stöðum," segir Hreinn Óskarsson, skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi. Þá mun ástandið vera slæmt á Kirkjubæjarklaustri þar sem ryðsveppur stakk sér fyrst niður í fyrra. Sveppur í ösp kom fyrst fram í Hveragerði og á Selfossi árið 1999, en síðan þá hefur smitið breiðst út. Lerki er millihýsill sem í ber sveppinn yfir í öspina. "Þess vegna þarf að vera lerki á staðnum til að sýking eigi sér stað. Svo dreifist þetta aftur af öspinni yfir á aðrar aspir. Þar sem búið er að höggva lerki er smit því minna áberandi," segir Hreinn og bætir við að minna beri á ryðsvepp á Selfossi og í Hveragerði en oft áður. "Þetta er í raun af því að það eru einfaldlega færri laufblöð á trjánum og þau öll gisnari en áður en þetta smit kom upp. Þetta virðist því vera minna og er kannski ekki eins alvarlegt, því ef krónan er gisin þá eru skilyrði verri fyrir sveppinn." Á Kirkjubæjarklaustri fer hins vegar saman nokkuð mikið laufskrúð aspa og lerki og því um kjöraðstæður að ræða fyrir ryðsveppinn. Hreinn segir töluvert kal hafa verið í öspinni, en ein af hliðarverkunum ryðsveppsins sé að trjánum sé hættara við kali. "Ryð hægir á haustþroska trjánna, þau hausta sig síðar." Góðu fréttirnar segir Hreinn hins vegar vera að til séu klónar sem sleppi vel frá asparryði. Klónar eru tré sem ræktuð hafa verið upp af afklippum frá ákveðnu tré og eru því erfðafræðilega eins. Hreinn nefnir að svokallaður Sælandsklón, sem mikið hafi verið notaður í Laugarási, hafi gefið góða raun, en oft sé um að ræða afklippur af trjám í Alaska. "Svo eru stórar tilraunir í gangi þar sem bestu klónunum hefur verið víxlað með það fyrir augum að búa til af þeim fræplöntur," segir hann og bætir við að úr þeim tilraunum hafi orðið til nokkrir klónar sem virðast sleppa ótrúlega vel. Hann telur því að hægt verði að komast fyrir vandann að einhverju leyti. "En síðan geta líka alltaf komið upp nýir sveppastofnar," bætir hann við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×