Erlent

Vara við borgarastyrjöld

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, var ómyrkur í máli á sunnudag þegar hann gagnrýndi þau öfl sem setja sig upp á móti áætlunum hans um að afnema landnemabyggðir gyðinga á Gaza-ströndinni og draga ísraelskar hersveitir burt frá svæðinu. Fjölmenn mótmæli voru í Jerúsalem á sunnudag gegn áætlunum Sharons, sem hefur lýst því yfir að hann muni hvergi hvika frá áformum sínum. Harðlínumenn meðal heittrúaðra gyðinga í Ísrael hafa hvatt ísraelska hermenn á Gaza að hafa að engu skipanir Sharons og kalla áætlunina "nasista-áætlun". Þeir vara við því að ef áætluninni verði hrundið í framkvæmd geti brotist út borgarastyrjöld með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Öryggismálayfirvöld í Ísrael hafa lýst yfir þungum áhyggjum af því að andstæðingar áætlunarinnar grípi til vopna. Ísraelski herinn réðist aftur inn á Gaza eftir sjálfsmorðsárásir í ágústlok og sögðust þá vera að koma í veg fyrir flugskeytaárásir úr flóttamannabúðum Palestínumanna. Síðustu daga hafa Ísraelar verið að draga herlið sitt til baka en fjöldi Palestínumanna, þar á meðal börn, hafa fallið í átökunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×