Erlent

Svepplaga ský myndaðist

Risastórt svepplaga reykský sást á myndum veðurtungla eftir mikla sprengingu sem átti sér stað í Yanggang héraði í norðurhluta Norður-Kóreu nærri landamærum Kína skömmu fyrir hádegi síðasta fimmtudag. Skýið var um 3,5 til 4 kílómetrar í þvermál. Haft hefur verið eftir sérfræðingum að skýið gæti stafað af náttúrulegum hamförum, svo sem skógareldum, en einnig hefur verið rætt um möguleikann á einhvers konar slysi eða jafnvel vopnatilraunum. Norður-Kórea er mjög einangrað land og hefur reynst erfitt að fá upplýsingar um hvað átti sér stað. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að ekki væri talið að sprengingin tengdist meintum tilraunum Norður-Kóreu með kjarnorkuvopn. "Við vitum hins vegar ekki hvað nákvæmlega átti sér stað," sagði hann. Bandaríkin, Rússland, Japan, Kína og Kóreuríkin tvö hafa átt í viðræðum um meinta kjarnorkuvopnaþróun Norður-Kóreu og samþykktu að halda þeim viðræðum áfram í Peking síðar í mánuðinum, en ekki hefur verið fastsett dagsetning í þeim efnum. Á fimmtudaginn var hátíðisdagur í Norður-Kóreu, en ríkið var stofnað þann 9. september árið 1948.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×