Innlent

Aðrir gengið fram fyrir skjöldu

"Mér finnst það heldur kaldranalegt af Davíð að halda því fram að sérstakur vinnufriður hafi ríkt í hans valdatíð," segir Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins. Davíð Oddsson, fráfarandi forsætisráðherra, segist stoltur í viðtali við Morgunblaðið að meiri vinnufriður hafi ríkt þau ár sem hann hefur setið í embætti en á öðru sambærilegu tímabili. Guðmundur fullyrðir að engin önnur ríkisstjórn hafi ögrað almenningi með sama hætti og stjórn Davíðs. "Hún hefur hvað eftir annað sett allt á annan endann með aðgerðum sínum. Þessir herrar hafa hækkað laun sín langt umfram aðra landsmenn og gert það með þeim hætti að hinn almenni vinnumarkaður lenti í afar erfiðri stöðu. Samtök atvinnulífsins hafa gagnrýnt Davíð og stjórn hans fyrir að setja samninga í uppnám og Alþjóðavinnumálastofnunin hefur oftar en einu sinni gefið ríkisstjórn Davíðs gula spjaldið fyrir aðgerðir sínar. Þannig má lengi telja og þess vegna er þessi yfirlýsing Davíðs kaldranaleg í ljósi þess að margir aðrir hafa þurft að ganga fram fyrir skjöldu þegar í óefni stefndi vegna aðgerða ríkisstjórnar hans."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×