Erlent

Kjarnorkusprenging í Norður-Kóreu?

Uppnám ríkir á Kóreuskaga í kjölfar frétta um að gríðarmikil sprenging hafi orðið í Norður-Kóreu í síðustu viku. Sá orðrómur er á kreiki að kjarnorkusprenging hafi orðið þótt sérfræðingar hafi vísað því á bug.  Málið er allt hið dularfyllsta enda kannski ekki við öðru að búast þegar um er ræða fréttir frá einu lokaðasta landi heims. Málið kom fyrst fram í dagsljósið þegar suður-kóreskir embættismenn skoðuðu gervitunglamyndir sem teknar voru yfir Norður-Kóreu í síðustu viku. Þeir tóku eftir því að undarlegt ský var yfir norðausturhluta landsins, skammt frá landamærum Kína, og töldu strax að skýið væri afleiðing sprengju sem hefði sprungið einhvern tíma síðla miðvikudags eða snemma fimmtudag. Skýið var ólíkt öðrum skýjum á þessu svæði og því fór af stað orðrómur um um kjarnorkuský væri að ræða. Vitað er að Norður-Kórea er að þróa kjarnorkuvopn og leyniþjónusta Bandaríkjanna varaði nýlega við því að fyrstu kjarnorkutilraunir gætu verið yfirvofandi. Ráðamenn í Suður-Kóreu hafa verið varkárir í yfirlýsingum sínum og segjast enn vera að afla upplýsinga um málið. Bandarískir og suður-kóreskir sérfræðingar telja þó að athuguðu máli að ólíklegt sé að um kjarnorkusprengingu hafi verið að ræða því það hefði ekki farið á milli mála. Ekkert hefur komið fram á jarðskjálftamælum og í Kína hafa menn ekki orðið varir við neitt. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir stjórnina hafa séð fréttir af þessari sprengingu en samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hafi var þarna ekki um neins konar kjarnorkusprengingu að ræða. Hann segir stjórnina vera að reyna að komast að því hvað þarna hafi gerst.   Varla þarf að orðlengja að ekki hefur verið minnst einu orði á neina sprengingu í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu. Skemmst er að minnast þess að það var fyrst þremur dögum eftir að sprenging varð á lestarstöð í Norður-Kóreu í apríl að yfirvöld viðurkenndu að atvikið hefði átt sér stað. Þar létust um 150 manns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×