Erlent

Ívan grimmi hefur fellt fimmtíu

Fellibylurinn Ívan, sem fengið hefur viðurnefnið grimmi, gengur nú yfir Cayman-eyjur og stefnir á Kúbu. Um fimmtíu manns liggja í valnum eftir yfirreið Ívans um Karíbahaf. Veðurofsinn í fellibyljum er sambærilegur við allra verstu veður sem verða á Íslandi. Fellibylurinn Ívan er nú þegar orðinn einn af skæðustu fellibyljum sem gengið hafa yfir Karíbahafið. Hann rokkar á milli þess að vera talinn fjórða eða fimmta stigs fellibylur en fimmta stigið er það hæsta. Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði, segir hættuna mjög raunverulega og ef ekkert verði gert farist þúsundir. Hættan stafi ekki af vindinum sem slíkum heldur flóðunum sem fylgi fellibyljum. Annars vegar geti sjór gengið á land og hins vegar rigni óskaplega mikið þannig að ár flæða yfir bakka sína og koma af stað aurskriðum. Ívan grimmi er nú yfir Cayman-eyjum sem eru smáeyjar á milli Jamaíku og Kúbu. Þessar eyjar eru breskt yfirráðasvæði og hafa löngum verið leikvöllur ríka og fræga fólksins. Fellibyljir valda mun meira manntjóni í fátækum löndum þar sem hús eru veikbyggð og varnir litlar en í þeim ríkari. Það veldur því skiljanlega meiri áhyggjum þegar fellibylur á borð við Ívan gengur yfir lönd eins og Kúbu og Jamaíka en Cayman-eyjar eða Bandaríkin. Kúbubúar búa sig nú undir það versta og fólk hefur verið flutt á brott frá vesturhluta landsins þar sem áætlað er að Ívan beri niður. Óttast er að vindhraðinn geti farið upp í 69 metra á sekúndu sem getur valdið gríðarlegu tjóni í landi sem Kúbu. Haraldur segir allra verstu veður á Íslandi sambærileg við fellibyl eins og Ívan en það er oftast vindur sem mældur er uppi á fjöllum þar sem enginn býr. Slíkt hvassviðri myndi vissulega valda röskun á lífi landsmanna í þéttbýli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×