Erlent

Kjarnorkusprenging í Norður-Kóreu?

Gríðarmikil sprengja virðist hafa sprungið í Norður-Kóreu í síðustu viku og um tíma var óttast að um kjarnorkusprengju hafi verið að ræða. Það hefur þó ekki fengið staðfest. Kommúnistaríkið Norður-Kórea er eitt lokaðasta land í heimi og fréttir þaðan berast bæði seint og illa ef þær berast þá nokkuð. Þannig kom þessi sprenging fyrst í ljós þegar suður- kóreskir sérfræðingar tóku eftir undarlegu skýi á gervitunglamynd og töldu líklegt að þetta ský hefði myndast eftir sprengingu í norðausturhluta Norður-Kóreu, skammt frá landamærum Kína. Miðað við útreikninga átti sprengingin sér stað einhvern tíma á milli eftirmiðdags á miðvikudag og fimmtudagsmorguns. Skýjað var á þessum tíma en þetta skrýtna ský var ólíkt öðrum og það vakti athygli sérfræðinganna. Sá kvittur fór strax á kreik að þetta hafi verið sveppalaga kjarnorkuský sem myndaðist eftir kjarnorkusprengingu. Embættismenn bæði í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum segjast þó efast um það og jarðskjálftamælar hafa ekki mælt neina hreyfingu sem hægt væri að rekja til slíkrar sprengingar. Sérfræðingar segja að ef kjarnorkusprengja væri sprengd þá myndi það ekki fara fram hjá neinum. Hins vegar er talið öruggt að stjórnvöld í Norður-Kóreu séu að búa til kjarnorkuvopn og bandaríska leyniþjónustan hafði nýlega sent Bandaríkjastjórn skýrslu um að fyrstu kjarnorkutilraunirnar gætu verið yfirvofandi í Norður-Kóreu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×