Innlent

Kverkatak Bjarkar á heiminum

„Aldrei vanmeta innblásna þvermóðsku listamanna.“ Þannig hefst dómur Jons Pareles um Medúllu, nýjustu plötu Bjarkar, í sunnudagsblaði New York Times í dag. Greinin ber yfirskriftina „Björk tekur heiminn kverkataki.“  Pareles segir að Björk hafi náð nýjum hæðum á plötunni. Frá upphafi hafi hún leitað leiða til að einfalda músíkina sína og nú sé hún komin að endamörkum. Pareles segir að ákveðin tvískipting einkenni allt sem Björk gerir: Í fyrsta lagi sé það köllun hennar að sameina hið jarðbundna við hið himneska, þá sé ímynd hennar bæði af stúlku og konu, hún sé í einu bæði barnaleg og veraldarvön og rödd hennar bæði einföld og flókin, eðlileg og gervileg. Reyndar segir Pareles að söngur Bjarkar sé ævinlega einlægur og þar hjálpi til að hún tali enskuna með hreim. Hún komist því upp með að syngja um hluti sem myndu hljóma hégómlega í munni annarra. Á Medúlla plötunni notar Björk nær eingöngu raddir í stað hljóðfæra en Pareles segir hana þó ekki falla í þann pytt að vera einstrengisleg og leyfi sér því af og til að nota einhver hljóðfæri. Þá segir að platan sé það sem Björk hefur komist næst því að verða pólitísk í músík sinni þar sem hún meðal annars fordæmir Osama og Bússa þessa heims. Að lokum segir Pareles að hlustendur þurfi að vera nokkuð sveigjanlegir til að kunna að meta Medúllu. Mörg laganna beri í sér tóm og séu opin upp á gátt, rétt eins og þau bíði eftir „rímixinu“.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×