Sport

FH mætir Allemannia Achen

FH-ingar mæta þýska 2. deildarliðinu Alemannia Achen í aðalkeppni Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu en dregið var fyrir hádegi. FH-ingar eiga fyrri leikinn heima 16. september. Mótherjar FH-inga komust óvænt í úrslit þýsku bikarkeppninnar í vor en biðu þar ósigur fyrir Werder Bremen. Þar sem Werder Bremen vann tvöfalt, fékk Alemannia keppnisrétt í Evrópukeppni félagsliða. Tvær umferðir eru búnar af þýsku 2.deildarkeppninni og er Alemannia-liðið í 9. sæti eftir tvö jafntefli. Engar stórstjörnur spila með liðinu en hjá félaginu eru meðal annarra; Hollendingurinn Eric Mejer sem spilaði um tíma með Liverpool, Chris Iwelumo fyrrverandi leikmaður Stoke og Kaj Michalke sem lék um tíma með Bochum og Herthu í Berlin. FH gat lent á móti fjórum öðrum liðum þegar dregið var; Middlesbrough, Dinamo Zagreb Króatíu, Club Brugge Belgíu, PAOL Saloniki, allt væntanlega miklu erfiðari mótherjar en þýska 2. deildarliðið Alemannia Achen. FH sló skoska liðið Dunfermline út úr keppni í gærkvöldi, sigraði 2-1 í Skotlandi eftir að hafa gert 2-2 jafntefli á Laugardalsvellinum í fyrri leiknum. Skotarnir komust í 1-0 en Ármann Smári Björnsson jafnaði metin 7 mínútum fyrir leikslok og það var síðan danski varnarmaðurinn, Tommy Nielsen, sem tryggði FH-ingum sigur á síðustu mínútunni og farseðilinn í aðalkeppni Evrópukeppni félagsliða. Skagamenn töpuðu fyrir sænska liðinu Hammarby 2-1. Guðjón Heiðar Sveinsson skoraði mark Skagamanna skömmu fyrir leikhlé. Svíarnir unnu samtals 4-1 í leikjunum tveimur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×