Sport

FH-ingar slógu út Skotana

FH-ingar launuðu Skotunum í liði Dunfermline óleikinn frá því í fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli og slógu þá út úr Evrópukeppninni með 1–2 sigri í Skotlandi í gærkvöldi. FH-ingar höfðu fyrri leikinn í hendi sér en misstu hann niður í 2–2 jafntefli á lokamínútum leiksins. Í gær voru það hinsvegar FH-ingar sem voru á skotskónum á lokamínútunum þegar þeir Ármann Smári Björnsson og Tommy Nielsen skoruðu mörk á síðustu sjö mínútum og tryggðu FH sæti í þriðju umferð keppninnar. „Þegar við fórum hérna út þá lögðum við leikinn þannig upp að við ættum góðan mörguleika á að slá þá út. Við áttum að vinna þá heima fjögur til fimm -  núll og við vorum búnir að mæta þeim einu sinni og sýna það að við værum miklu betri en þeir,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH-liðsins sem var kátur þegar Fréttablaðið heyrði í honum eftir leikinn.  „Þetta lengir tímabilið og fjölgar leikjunum um að minnsta kosti tvo og við erum bara mjög sáttir við það. Við viljum spila fótbolta og etja kappi við lið út í heimi og það er frábært að komast áfram.“ Útlitið var orðið svart Útlitið var samt orðið svart hjá FH-liðinu eftir að Gary Dempsey hafði komið Dunfermline yfir á 72. mínútu en FH-liðið gafst ekki upp þótt mótlætið væri mikið. Ármann Smári Björnsson jafnaði leikinn á 83. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður og það var síðan Daninn Tommy Nielsen sem skoraði sigurmarkið á lokamínútunni eftir hornspyrn en FH átti líka skot í slá á lokakafla leiksins. „Við lendum undir en sýndum frábæran karakter, komum til baka og gerum tvö mörk. Við vorum ekkert síðri en þeir í fótbolta en fyrstu 20 mínúturnar í hvorum hálfleik voru okkur erfiðar sem við vissum fyrir. En eftir það voru engin vandamál og þá héldum við boltanum vel og sundurspiluðum þá á tímabili. Þessi úrslit sýna tvímælalaust enn frekar styrk liðsins og það líka að það skiptir okkur ekki máli hvar við spilum við leikum okkar bolta hvar sem er,“ sagði Ólafur sem var sáttur við vörnina. „Varnarleikurinn okkar var mjög fínn og við gáfum ekki mörg færi á okkur. Vörnin spilaði boltanm líka vel frá sér og það skipti miklu máli að það var enginn að æsa sig og við biðum rólegir og drógum þá fram á völlinni. Þeir voru óþolinmóðir og þegar áhorfendurnir fóru að púa á þá þá komu þeir framar á völlinn alveg eins og við vildum hafa það,“ og Ólafur var alltaf viss um að FH væri með betra lið en Skotarnir. Ólöglegt mark hjá Skotunum „Markið sem við fengum á okkur var geysilegt áfall og við vorum ósáttir með það því þá var grenilega brotið á Daða markverði. Við lögðum það hinsvegar upp að halda áfram sama hvað myndi dynja á okkur í þessum leik. Við sýndum styrk og settum tvö á þá í lokin og Skotarnir voru þvílíkt spældir hérna úti, það er ekki hægt að lýsa því. Þeir eru bara ekki betri en við í fótbolta. Eins og ég sagði við þá það er ekki nóg að eiga fína bíla og ganga um í flottum jakkafötum. Það hjálpar mönnum ekkert í fótboltanum,“ sagði Ólafur í léttum tón að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×