Sport

Að sníða sér stakk eftir vexti

Það efast enginn um það að fáir íslenskir knattspyrnumenn eru að spila jafn vel og Gylfi Einarsson um þessar mundir. Gylfi hefur farið á kostum með norska liðinu Lilleström í sumar og til að taka af allan vafa um raunverulega getu hans var hann besti maður vallarins þegar Ísland vann Ítalíu fyrir skömmu. Þar skoraði hann eitt mark, lagði upp annað og vann flest þau návígi sem hann fór í. Hluti af ástæðu þess að hann er að spila jafn vel og raun ber vitni er að hann er loksins farinn að spila þá stöðu sem hentar honum best, sem framliggjandi miðjumaður. Gylfi hefur átt erfitt uppdráttar frá því að hann kom til Noregs í október árið 2000, verið inni og úti úr liði Lilleström og aldrei náð að festa sig í sessi í íslenska landsliðinu. Allt þar til nú. Í dag er hann á toppi ferils síns, með lausan samning eftir að tímabili lýkur og hefur þegar hafnað nýju tilboði frá Lilleström. Hann hefur gefið það út að hann vilji spila í sterkari deild þar sem spilaðir eru fleiri leikir en í norsku úrvalsdeildinni. Það er skiljanlegt að Gylfi vilji notfæra sér sterka stöðu sína í augnablikinu en hann skal þó vara sig á því að færast ekki of mikið í fang. Hjá Lilleström passar hann vel inn í liðið og allt leikur í lyndi en það er engin trygging fyrir því að að það sama verði uppi á teningnum ef hann færir sig um set, ég tala ekki um ef hann fer í einhverja af stærstu deildum Evrópu. Það hefur verið landlægur ósiður hjá íslenskum knattspyrnumönnum að taka stærri skref en þeir raunverulega valda og margir leikmenn hafa einfaldlega fryst feril sinn með illa ígrunduðum ákvörðunum um eigin framtíð. Arnar Gunnlaugsson byrjaði tímabilið 1998-1999 frábærlega með Bolton í ensku 1. deildinni. Hann skoraði glæsileg mörk og var kominn í guðatölu hjá stuðningsmönnum liðsins. Það leið ekki á löngu þar til hann fór að krefjast launahækkunar eða að vera settur á sölulista. Hann var seldur til Leicester City í febrúar 1999 en þau draumafélagaskipti snerust fljótlega upp í martröð fyrir Arnar sem enn sér ekki fyrir endann á. Hann spilaði fáa leiki fyrir félagið, fór þaðan til skoska liðsins Dundee United þar sem það sama var uppi á teningnum og endaði síðan í KR þar sem smám saman hefur fjarað undan ferli þessa eitt sinn frábæra knattspyrnumanns. Gylliboðið freistaði Þórður Guðjónsson var kóngur í Belgíu þegar hann lék þar með Genk og átti stóran þátt í því að liðið varð belgískur meistari árið 1999 og bikarmeistari ári seinna. Þórður freistaðist af gylliboði spænska liðsins Las Palmas vorið 2000 en þrátt fyrir að kosta mikið spilaði hann aðeins átta leiki fyrir félagið þau tvö tímabil sem hann dvaldi hjá liðinu. Hann fór að lokum til Bochum en þar hefur hann aldrei náð sömu hæðum og hjá Genk forðum daga og var til að mynda sá eini í byrjunarliði Íslands gegn Ítölum sem ekki átti fast sæti í sínu félagsliði. Jóhannes á Spáni Bróðir Þórðar, Jóhannes Karl, fetaði í fótspor bróður síns ári seinna. Hann átti hreint út sagt frábært tímabil með hollenska liðinu RKC Waalwijk leiktíðina 2000-2001 eftir að hafa komið til liðsins frá Genk og var af mörgum talinn vera einn af bestu miðjumönnum hollensku deildarinnar. Honum bauðst að fara til spænska stórliðsins Real Betis haustið 2001 og eftir tólf leiki þar var ljóst að hann var ekki inni í framtíðarplönum félagsins. Þá tók við kapphlaupið mikla hjá honum þar sem hann var lánaður til enskra úrvalsdeildarliða, fyrst Aston Villa og síðan Wolves. Hann spilaði nánast ekkert með Wolves í fyrra jafnvel þótt liðið væri án nokkurs vafa það lélegasta í ensku úrvalsdeildinni og það hafði sín áhrif á knattspyrnumanninn Jóhannes Karl. Nú er hann hins vegar laus úr spænsku prísundinni og kominn til Leicester en eftir stendur að hann hefur bætt sig meira í golfi en fótbolta undanfarin þrjú ár. För Helga til Grikklands Helgi Sigurðsson skoraði grimmt með norska liðinu Stabæk sumarið 1999. Hann hafði skorað fjórtán mörk í átján leikjum með félaginu það tímabil þegar hann var seldur til gríska stórliðsins Panathinaikos fyrir 140 milljónir íslenskra króna. Helgi átti aldrei möguleika að festa sig í sessi hjá hinu geysisterka gríska liði og varð því fegnastur þegar hann var keyptur til norska liðsins Lyn sumarið 2002. Þar náði hann sér ekki á strik, var hálfdrættingur miðað við þann Helga Sigurðsson sem lék í Stabæk áður en hann fór til Grikklands og spilar nú með danska liðinu AGF. Það eru svo sem ekki slæm örlög að spila í Árósum en varla sá staður sem menn hefðu búist við að Helgi myndi spila fimm árum eftir að hann var einn heitasti framherji norsku úrvalsdeildarinnar. Hér hafa verið taldir upp fjórir snjallir leikmenn sem liðu annað hvort fyrir það að vera fórnarlömb aðstæðnanna eða ofmátu sjálfa sig. Að sjálfsögðu hafa margir nokkrir íslenskir leikmenn tekið skrefið upp á við eins og Eiður Smári Guðjohnsen og Heiðar Helguson. Gylfi Einarsson gæti vel leikið það eftir en hann verður að hafa í huga að það er nauðsynlegt að sníða sér stakk eftir vexti, velgengni á einum stað tryggir hana ekki á öðrum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×