Sport

Ætlum okkur áfram

FH-ingar mæta í kvöld skoska liðinu Dunfermline öðru sinni í forkeppni Evrópukeppni félagsliða. Fyrri leikurinn, sem fram fór á Laugardalsvelli, endaði 2-2 og þótti flestum FH-ingum, og reyndar íslenskum knattspyrnuunnendum, það frekar súrt í broti þótt fyrir fram væru Skotarnir taldir töluvert sterkari. FH-ingar léku nefnilega geysilega vel lungann úr þeim leik, komust í 2-0 og voru afar óheppnir að bæta ekki við marki eða mörkum. Skotunum tókst síðan að jafna metin á lokakaflanum og þóttu sleppa vel. Fréttablaðið sló á þráðinn til Ólafs Jóhannessonar, þjálfara FH-inga, og heyrði í honum hljóðið. "Við vorum bölvaðir klaufar að vinna ekki sigur á Skotunum á Laugardalsvelli en sá leikur er búinn og við hugsum ekki meira um hann. Við lærðum auðvitað heilmikið af honum og hyggjumst nýta okkur það í leiknum í kvöld. En við komum ekki til með að breyta leik okkar því í raun erum við undir og þurfum að sækja - það er ekkert nema sigur sem kemur okkur áfram í næstu umferð og þangað stefnum við óhikað. Svo er það nú einu sinni staðreynd að sóknarbolti hentar okkur best. Við erum ekkert varnalið, það verður bara að segjast eins og er." Ólafur er á því að Skotarnir hafi ekki búist við mikilli mótspyrnu í fyrri leiknum. "Þeir hafa ábyggilega vanmetið okkur, það gerist reyndar mjög oft þegar atvinnumenn spila við áhugamenn, og var því í sjálfu sér ósköp eðlilegt. Ég er hins vegar ekkert viss um að þeir vanmeti okkur núna. Þeir eru vissulega með forystuna og ætla sér eflaust að verja hana en við sjáum hvað setur. Ég held að það sé rétt hjá mér að í útileikjum FH í Evrópukeppnunum í gegnum tíðina hafi liðinu alltaf tekist að skora og ég vona að það haldist." Ólafur er ákveðinn í svörum þegar hann er spurður um möguleikana í leiknum í kvöld: "Við erum mættir hingað til að sigra, annars gætum við bara verið heima hjá okkur. Við erum ekkert að standa í þessu bara til að standa í þessu - við ætlum okkur að fara áfram og leggjum allt undir til þess að það takist." En er Ólafur ekki bara á því að þátttaka FH-inga í Evrópukeppninni sé til þess fólgin að styrkja liðið fyrir lokaátökin í deildinni og bikarnum hérna heima? "Ég ætla svo sannarlega að vona það. Svo framarlega sem við missum ekki menn í meiðsli þá styrkir þátttakan liðið mjög svo og þá sérstaklega andlegu hliðina. Þetta er einfaldlega það skemmtilegasta sem við sem fótboltalið gerum og við ætlum að njóta dagsins," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH-inga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×