Innlent

Framsóknarkonur íhuga sérframboð

Ríkisstjórnin hefur svikið loforð um jöfnun á hlut kynjanna í stjórnmálum með brottvikningu Sivjar Friðleifsdóttur úr ráðherrastóli, að mati Þorbjargar Ingu Jónsdóttur, hæstaréttarlögmanns og formanns Kvenréttindafélags Íslands. Hún segir að áhugavert væri að skoða hvort rétt sé að fara með ákvörðun Framsóknarflokksins fyrir dómstóla. Bryndís Bjarnason, jafnréttisfulltrúi Framsóknarflokksins, segir kvennaframboð koma til greina haldi flokksforystan áfram að ganga fram hjá konum. Þorbjörg er undrandi og hneyksluð á brottvikningu Sivjar. Öll viðmið sem fylgt hafi verið við val á ráðherrum og þær reglur sem Framsóknarflokkurinn sjálfur hafi skapað sér séu brotin. Ríkisstjórnin standi ekki undir væntingum Kvenréttindafélags og annarra sem vinni að jafnrétti kynjanna. „Ég segi þetta tvímælalaust svikin loforð,“ segir Þorbjörg. Augljóst sé að allir þingmenn Framsóknarflokksins séu hæfir til að gegna ráðherradómi: „En mér finnst að áfram eigi að nota þau viðmið sem ég tel að hafi verið notuð í pólitík, það er að segja hverjir komi úr stærstu kjördæmunum, hverjir hafi flestu atkvæðin á bak við sig og annað slíkt. Ég get ekki dregið aðra ályktun en að fólk í Framsóknarflokknum leyfi sér að horfa fram hjá öllu slíku núna vegna þess að Siv er kona. Mér finnst að um brot á jafnrétti sé að ræða.“ Þorbjörg segir að brottvikning Sivjar fái konur sem vinni að jafnréttismálum til að huga að því hvort eina leiðin til jafnréttis sé sérstakt kvennaframboð til að jafna hlut kynjanna í pólitík. „Ef það er ekki hægt að breyta hlutum með öðrum hætti hljótum við að knýja á um að það verði settur kynjakvóti á framboðslistanna, inn á þing og í ríkisstjórn.“ Bryndís Bjarnason segir ólgu og hita vera í konum innan flokksins vegna hvarfs Sivjar úr ráðherrastóli. Hún segir Framsóknarkonur þó ekki á leið út úr flokknum, en sérframboð hafi verið rætt: „Það er ekkert launungarmál. Konur eru búnar að fá nóg. Við höfum ákveðið að efla okkur innan flokksins, en kvennaframboð kemur til greina ef ekkert gengur.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×