Innlent

Vonbrigði án smásala

"Það veldur mér miklum vonbrigðum ef smásalarnir vilja ekki taka þátt í þessu með okkur, nema með því móti að sjúklingarnir missi sína afslætti" sagði Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra um að apótekin séu farin að draga stórlega úr afsláttum á lyfjaverði til sjúklinga í kjölfar sparnaðaraðgerða ríkisins í lyfjamálum. Ráðherra bætti við að hann ætti erfitt með því að trúa því að "smásalan ætti enga aðra leið heldur en þá að velta þessu yfir á sjúklingana." Hann sagði að mikil magnaukning hefði verið í lyfjasölu á undanförnum árum. Smásalan væri mjög "stór pakki," álagningin væri tiltölulega rúm og apótek hér helmingi fleiri á hverja hundrað íbúa heldur en til dæmis í Danmörku. Heilbrigðisráðherra undirstrikaði að eins og fram hefði komið í skýrslu ríkisendurskoðunar væri lyfjaverð hér um 4 miljörðum hærra heldur en á Norðurlöndunum. Heilbrigðisyfirvöld hefðu brugðist við því eins og þeim bæri skylda til og náð góðu samstarfi við lyfjaheildsala um að taka verðið niður á tveimur árum, þannig að verðið yrði sambærilegt við meðalverð á Norðurlöndum. Samkomulag hefði verið gert um þá aðgerð í góðu samstarfi. "Þetta fer vitaskuld einnig yfir í smásöluna," sagði heilbrigðisráðherra. "Ég vonast svo sannarlega til þess að menn reyni allar leiðir í þessu máli, aðrar en að taka afslættina af sjúklingunum." Varðandi boðaðar endurbætur á rekstrarumhverfi apótekanna sagði ráðherra að verið væri að koma af stað nefnd sem hefði það verk með höndum að endurskoða lyfjalögin. "Það hefur mikið verið að gerast í lyfjamálum og það virðist góð samstaða um að útrýma þessum mikla verðmun sem er afar brýnt og mikið hagsmunamál fyrir alla, bæði skattgreiðendur og neytendur," sagði ráðherra og bætti við að nú væri lyfjaverðsnefnd komin á laggirnar aftur eftir lagabreytingu í sumar. Hún hefði verið styrkt í sessi og myndi væntanlega hafa samskipti við lyfjasmásalana. Þeir hefðu þó eftir sem áður aðgang að ráðherra heilbrigðismála, á sama hátt og verið hefði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×