Innlent

Krefst fangelsisdóms

Sækjandi, í máli gegn Þjóðverja sem verið hefur verið í farbanni grunaður um manndráp af gáleysi, fór fram á maðurinn yrði dæmdur í fangelsi. Þjóðverjinn ók ölvaður bíl sem hann velti á Krísuvíkurvegi 24. júlí síðastliðinn, einn farþeganna í bílnum lést af áverkum sínum fimm sólarhringum eftir slysið. Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Þjóðverjinn játar að hafa ekið bílnum ölvaður en neitar að vera sekur um manndráp af gáleysi. Mennirnir sem voru í bílnum sammældust um að segja lögreglu að sá slasaði hefði ekið bílnum og sögðu ekki hið sanna fyrr en daginn eftir slysið. Slysið varð eftir að ökumaðurinn og fjórir aðrir Þjóðverjar voru að koma frá Kleifarvatni þar sem þeir höfðu grillað og neitt áfengis. Öllum mönnunum ber saman um að maðurinn sem lést hafi ekið bílnum að Kleifarvatni og að til hafi staðið að hann myndi aka bílnum til baka. Hann hafi hins vegar byrjað að drekka og síðar dottið á andlitið. Ákveðið hafi verið að koma manninum til læknis, og hafi þá sá sem nú er ákærður ekið bílnum. Sá segist hafa tekið ákvörðun um að aka þar sem hinir mennirnir hafi verið of ölvaðir eða ekki með ökuskírteini. Einn mannanna mældist þó aðeins með 0,1 prómill af áfengi í blóði. Ökumanninum, tveimur Þjóðverjanna og rannsakendum ber ekki saman um á hvað dekk bílsins var loftlaust eða í hvað átt bíllinn rásaði fyrst. Öllum sem að málinu komu ber saman um að mikil lausamöl hafi verið á veginum. Áfengismagn í blóði ökumannsins reyndist vera 0,89 prómill en 1,21 í þvagi. Sjálfur segir hann það geta passað þar sem hann hefði áður drukkið tvo bjóra og tvo snafsa. Sækjanda þótti sannað að slysið hafi orðið þar sem ökumaðurinn hafi verið óhæfur til aksturs og til að sýna rétt viðbrögð. Blóðsýni úr manninum hafi ekki verð tekinn fyrr en tveimur tímum eftir slysið og hafi verið farið að renna af honum. Verjandi segir orsök slyssins hins vegar vera ástand vegarins og loftlauss hjólbarða. Því eigi að sýkna manninn af manndrápi af gáleysi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×