Innlent

Vatn rauf skarð í varnargarð

Hættuástand skapaðist við virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka í gærkvöldi þegar vatnsflaumur Jökulsár á Dal rauf skarð í varnargarðinn sem verndar vinnusvæði þeirra er starfa við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Vatn hefur runnið undir garðinn og þurfti í gær að rýma vinnusvæðið. Starfsmenn Impregilo hafa unnið hörðum höndum að því að dæla burt vatni og þétta varnargarðinn en verkið reynist erfitt. Það er ekki eina áhyggjuefni virkjunarmanna. Óvíst er hvort brúin yfir ána hefur skemmst meira en í fyrrakvöld. Í gær fór hún á kaf í annað sinn á sólarhring þegar vatnshæð Jökulsár náði 479 metrum. Hefur vatnsborðið aldrei mælst hærra en óttast er að enn eigi eftir að hækka í henni næstu daga. Að sögn Páls Ólafssonar, staðarverkfræðings Landsvirkjunar við Kárahnjúka, var mikið gert til að tryggja og festa brúna í gærdag enda laskaðist hún talsvert þegar fyrst flaut yfir hana í fyrrakvöld. Einnig kvarnaðist talsvert úr vegarstæði því sem liggur að brúnni sunnan megin. "Brúin sjálf er í raun ekki í hættu og brúarstæðin þykja trygg en áhyggjur okkar eru fyrst og fremst hvað varðar brúargólfið sjálft. Vatnsstraumurinn gæti hrifið það með sér og það gæti aftur haft alvarlegar afleiðingar." Fyrir framan varnarstífluna hefur myndast myndarlegt lón þar sem hjáveitugöng þau er eiga að veita vatninu framhjá anna ekki hlutverki sínu. Ótti manna varðar helst það sem gerist ef varnarstíflan gefur sig meira en verið hefur en slíkt myndi setja allra framkvæmdina í uppnám um óákveðinn tíma. albert@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×