Innlent

Útihátíðir og ungmenni

Ungmenni undir 16 ára aldri þurfa að vera í fylgd forráðamanna ef þau hyggjast leggja leið sína á útihátíð um Verslunarmannahelgina. Þetta segja lögin sem þó hafa verið þverbrotin síðustu áratugi.  Um miðja síðustu öld fór töluvert að bera á ölvun unglinga tengdri útihátíðum. Árið 1952 mátti lesa í dagblöðum kvartanir yfir ,,óheyrilegri ölvun og skrílmennsku“ um Verslunarmannahelgina, þar sem ,,ölmóður óspektalýður ... framdi mikil spell“. Rætur þessarar hefðar eru þó taldar liggja enn lengra aftur samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir dómsmálaráðuneytið. Sú hátíð sem fékk einna mest umfjöllun á þessum árum var hátíð í Þjórsárdal árið 1963. Í Morgunblaðinu sagði að mörg ungmenni, flest á aldrinum 15 til 17 ára, hafi legið eins og hráviði um skóg og lautir, ósjálfbjarga af ölvun, en þeir sem enn höfðu meðvitund ráfuðu um og böðuðu sig í Sandá, ýmist í fötunum eða naktir. Þetta gerðist þrátt fyrir að lögreglan hafi deginum áður gert upptækar 60 flöskur af áfengi af 30 unglingum á aldrinum 15 til 19 ára. Margir þessara unglinga eru orðnir foreldrar í dag, jafnvel afar og ömmur, og standa mörg hver í stappi við sín börn sem eru harðákveðin í að fara á útihátíð með jafnöldrum sínum. Að mati Geirs Jóns Þórissonar yfirlögreglustjóra er enginn vafi á því hver ræður, lögum samkvæmt. Ef unglingurinn er yngri en 16 ára þá geta foreldrar sagt að það komi ekki til greina, og ef hann er yngri en 18 ára þá er hægt að bjóðast til að fara með honum. Fram að 18 ára aldri ráða nefnilega foreldrarnir.  Vitað er að börn allt niður í 14 ára aldur hafi keypt miða á útihátíðir í ár. Þótt miðinn sé í hendi, með eða án samþykkis foreldris, er hann þó líklega einungis ávísun á vandræði.  Geir Jón segir gæslumenn á útihátíðum hafa sent krakka, sem voru undir aldri, heim með fyrstu ferð. Hann væntir þess að þeir geri það líka núna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×